Hér er rólegt ... stundum fullrólegt
„Ég fékk tilboð um að koma til Íslands og vissi ekki neitt um landið, vissi ekki einu sinni hvar það var. Faðir minn þekkti lítillega til landsins því íslensk fyrirtæki höfðu pantað ellefu skip frá Kína en pabbi vann í skipasmíðastöð sem smíðaði fjögur þeirra. Hann sagði Ísland vera gott og öruggt land svo ég kom hingað árið 2005, fyrir næstum tuttugu árum.“
Lífið er gott á Íslandi
Yi kynntist Xuewen, eiginkonu sinni á Íslandi en hún er einnig frá Kína. Xuewen hafði búið á Íslandi frá 1998 en þau gengu í hjónaband árið 2009 og eiga tvo syni, Ragnar Liu og Aron Liu. Hjónin vinna og reka Kína Panda á Hafnargötu í Reykjanesbæ og synirnir láta sitt ekki eftir liggja og hafa unnið með foreldrum sínum í sumarfríinu.
„Við Xuewen kynntumst hér á Íslandi og gengum í hjónaband árið 2009. Þegar við giftum okkur héldum við þrjár brúðkaupsveislur, sú fyrsta var haldin hér en svo héldum við líka veislur í heimaborg minni og hennar,“ segir Yi en þau halda góðum tengslum við heimalandið sem þau heimsækja á hverju ári, „... en ekki eftir Covid. Við höfum bara haldið okkur hérna.“
Hvernig gengur að reka asískan veitingastað í Reykjanesbæ?
„Reksturinn gengur ágætlega. Íslendingum finnst asískur matur góður og það er ekki alltaf hægt að borða það sama, fólk vill tilbreytingu annað slagið. Það er eins með okkur Asíubúa, við borðum ekki hrísgrjón alla daga. Stundum fáum við okkur hamborgara,“ segir Yi og hlær.
Er allt starfsfólkið kínversk?
„Já, allir kokkarnir hjá okkur koma frá Kína. Asísk matreiðsla er svo frábrugðin annarri matargerð að við ráðum kínverska kokka til okkar.“
Yi segir að venjan sé að kokkarnir komi einir. Það fylgja því ýmis vandamál ef fjölskyldurnar koma líka. „Eiginkonurnar þurfa líka vinnu og það er svolítið erfitt núna,“ segir Yi sem kom á sínum tíma sem svona farandkokkur og hóf þá störf hjá Nings.
Hvernig gekk reksturinn í Covid?
„Það var allt í lagi. Við seldum mikið í heimtöku [e. take away] og þurftum að fækka borðum í salnum til að gæta fjarlægðar milli viðskiptavina. Það gekk allt ágætlega,“ segir Yi sem hefur tekið eftir breytingum eftir faraldurinn. „Reksturinn í dag er ekki alveg eins og hann var fyrir Covid. Í dag erum við með færri borð í salnum, fólk borðar sjaldnar á staðnum en tekur matinn frekar með sér. Núna er hlutfallið mjög svipað milli þeirra sem borða hér og þeirra sem taka matinn heim.“
Kanntu vel við þig hér í Reykjanesbæ?
„Já, ég kann mjög vel við mig hérna. Hér er rólegt og öruggt að búa, stundum kannski fullrólegt ... jafnvel leiðinlegt,“ segir hann og hlær. „Ég veit ekki hver staðan væri ef ég ætti ekki fjölskyldu hér. Þá væri ég kannski hluta úr ári á Íslandi og héldi að hluta til í Kína hjá foreldrum mínum en þau eru tekin að eldast.“ Yi er einkabarn foreldra sinna þar sem Kínverjum var einungis heimilt að eignast eitt barn á sínum tíma. Hann hefur því áhyggjur af því hvernig foreldrum hans muni reiða af á eldri árum og mun hugsanlega verja meiri tíma hjá þeim eftir því sem þau eldast.
Heldurðu að þið komið til með að búa á Íslandi það sem eftir er?
„Já, við ætlum okkur það. Ég á samt stóra fjölskyldu í Kína, foreldrar mínir máttu bara eignast eitt barn en þau eiga líka systkini og systkinabörn. Svo ég á nokkuð stóra fjölskyldu þar.“
Vinnan og fjölskyldan áhugamálin
Yi hefur ekki mikinn frítíma en megnið af hans tíma fer í veitingastaðinn. „Vinnudagarnir eru langir svo það gefst ekki mikill tími til að sinna áhugamálum, vinnan og fjölskyldan eru mín aðaláhugamál og stundum fer ég í sund. Það er gott að slaka á í sundi ef maður er þreyttur eftir mikla vinnu.“
Þið rekið líka verslun samhliða veitingastaðnum. Hvernig kom það til?
„Í Covid hækkaði verð á aðföngum fyrir veitingastaði mjög mikið og það var erfitt að fá vörur. Ég fór því að skoða það að panta vörur frá Evrópu en birgjunum þóttu pantanir frá litlum veitingastað á Íslandi of litlar. Við vorum með annan sal sem hafði verið notaður fyrir einkasamkvæmi og þess háttar og ég ákvað ég að prófa að opna verslun í honum. Þannig gat ég pantað og flutt inn stærri sendingar, hluti þess fer í veitingastaðinn og hluti í smásölu,“ segir Yi en Kína Panda selur allt á milli himins og jarðar í versluninni; sósur, krydd, núðlur, leikföng, reykelsi og hvað eina.
„Núna er Covid liðið hjá og mun auðveldara að verða sér úti um aðföng. Hins vegar eru þeir afslættir sem við fáum ekki eins miklir og stóru veitingastaðirnir á Reykjavíkursvæðinu fá þannig að við höfum haldið áfram okkar innflutningi. Svo eru margir viðskiptavinir okkar sem vilja prófa að elda asískan mat sjálfir og þeir hafa verið duglegir að kaupa það sem vantar í matreiðsluna hjá okkur. Svo núna getum við eiginlega ekki lokað versluninni,“ sagði Yi Liu að lokum.